150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[18:58]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við fjöllum um frumvarp til laga um opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu. Ég spyr hv. framsögumann hvort hann sé ekki sammála mér um að það er rosalega mikið af „ef þetta“ og „ef hitt gengur upp“ í þessu, ef selst meira land þá verða ef til vill lægri flýtigjöld. Ef hlutirnir ganga eins og þeir eiga að gera þá verður kannski hægt að fjármagna þetta eins og á að gera ef landið selst á réttu verði.

Það sem ég efast mest um er Reykjavíkurborg. Mun hún standa við að bæta samgöngur á höfuðborgarsvæðinu öðruvísi en bara með borgarlínu? Borgarstjórn hefur sýnt hingað til að hún vill stöðva alla umferð, girða fyrir alla bílaumferð og hefur sýnt þá stórkostlegu eiginleika að geta haft Laugaveginn þannig að hægt er bæði að keyra niður og upp og svo ekki neitt. Þannig að ég efast stórlega, eins og kemur fram hérna, um að þetta gangi upp. Ég efast um fjármögnunina. Ég efast líka um sölu á landi til að standa undir fjármögnun og við þekkjum það af fyrri reynslu að selt var símafyrirtæki sem átti að standa undir byggingu Landspítalans. Það var stórt „ef“ og endaði í engu og hvarf. „Efin“ eru mörg. Hvað verður um Tilraunastöð Háskólans Íslands í meinafræðum? Eru þingmenn ekki bara sammála mér, er þetta ekki bara eitt stórt „ef“? Gengur þetta nokkuð upp?