150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[19:06]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. framsögumanni nefndarálits, Haraldi Benediktssyni, fyrir greinargott yfirlit. Þetta er, eins og hv. þingmaður kom inn á, gríðarlega stórt og mikið verkefni sem horfir til framtíðarskipanar og er mikilvægt fyrir íbúana í sveitarfélögunum næst Reykjavík, mikilvægt fyrir auðvitað alla landsmenn í leiðinni og horft er til mikilvægra þátta, umhverfisþátta, loftslagsmála og síðast en ekki síst greiðra og góðra umferðaræða og umferðaröryggis.

Mig langar aðeins að heyra í hv. framsögumanni hvort eitthvað hafi verið fjallað um forgangsröðun verkefna þessa flókna og margþætta verkefnis sem tekur líklega einn og hálfan áratug. Hafa menn eitthvað rætt um það því að það er ljóst að hægt er að gera bragarbætur sem þurfa ekki að hafa mjög langan aðdraganda. Ég nefni sem dæmi ljósastýringu, sem þeir sem gerþekkja til telja að geti haft veruleg áhrif á flæði og öryggi í umferðinni. Verður það hugsanlega forgangsmál? Getur hv. þingmaður eitthvað fjallað um þann þátt? Þeir sem ferðast mikið um borgina á annatímum verða varir við að það er ekki stýring á þessum hlutum og menn menga í umferðinni (Forseti hringir.) meira en þeir þyrftu ef stýring væri góð.