150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[19:12]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eðli málsins samkvæmt í umfjöllun um málið fjallar fjárlaganefnd ekki um álagningu umferðargjalda umfram það sem kemur fram í samkomulaginu. Þau eiga að standa undir 60 milljörðum af samkomulaginu. Ég get þá bara brugðist við ágætu andsvari hv. þingmanns með því að segja: Ég tek alveg eftir því að hér eru stjórnmálaflokkar á hinu háa Alþingi sem hjakka svolítið í því sama fari að vilja ekki ræða breytingar á skattlagningu á umferð og hanga svolítið eins og hundar á roði í þeim efnum. Við þekkjum það vel, ég og ágætur hv. þm. Guðjón Brjánsson, hvernig hófleg gjaldtaka af Hvalfjarðargöngunum var gerð með ríkum vilja og öllum þótti sjálfsagt þegar yfir lauk. Það getur vel verið að menn óttist álagningu á umferð með þeim hætti sem við erum að tala um hér en þá megum við ekki heldur gleyma þeirri flýtingu og þeim tíma sem fólk (Forseti hringir.) græðir á móti og minni eldsneytiseyðslu o.s.frv. (Forseti hringir.) sem getur vegið á móti þeirri gjaldtöku.