150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[19:15]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hann spyr: Er forsvaranlegt að halda áfram með borgarlínuna vegna óvissu? Svar mitt er einfaldlega: Hér stofnum við félag og vettvang þar sem við greiðum úr óvissunni. Við komum okkur saman um framkvæmdina. Í samkomulaginu er gerður fjárhagslegur rammi utan um þær framkvæmdir sem menn vilja fara í. Það er engin óvissa í þeim efnum. Hvernig menn útfæra síðan það sem menn hafa kallað borgarlínu eða aðrar samgöngubætur útkljá menn í félaginu og við gerum áskilnað um það að það verði síðan birt í eðlilegum þingmálum í þinginu og við getum líka rætt það á þeim vettvangi eins og í umræðum um samgönguáætlun og fjármálaáætlun og síðan við afgreiðslu fjárlaga hverju sinni.

Hv. þingmaður nefndi holótta vegi á Vestfjörðum og hvort Vestfirðingar eigi að greiða fyrir borgarlínuna. Ég held að við ættum einmitt þess vegna líka að taka umræðuna um fjármögnun samgönguframkvæmda út frá flýtigjaldahugmyndinni með þeim hætti. En það vakti svolítið undrun mína þegar við vorum að fjalla um málið hvað við fengum fáar umsagnir um það. Ég velti því reyndar talsvert fyrir mér eftir að hafa fjallað um málið, og við erum búin að plægja okkur í gegnum það á þann átt, hvers vegna það form ætti ekki alveg eins heima í samkomulagi við einstaka landshlutasamtök um t.d. endurbætur tengivega eða einhverjum slíkum samningum. Þá er ég einfaldlega að horfa til þess að ríkið á verðmætar eignir víða um land og við vitum að þörf er fyrir endurbætur. Getum við fundið eitthvert form þar sem við horfum til langs tíma um uppbyggingu og til áforma og ekki bara með samgönguáætlun sem við gerum hverju sinni? En það verður þó líka að nefna að sem betur fer hafa landshlutasamtök í auknum mæli (Forseti hringir.) komið fram með sameiginlega stefnu í samgöngumálum og samgönguáætlanir. Því hefur ekki verið til að dreifa hér á höfuðborgarsvæðinu.