150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

ferðagjöf.

839. mál
[20:02]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Það sem við lögðum upp með í málinu var að vernda friðhelgi einkalífsins. Persónuvernd sendi umsögn um málið og gerði ekki athugasemdir við það eins og það liggur fyrir en ítrekaði þó að þetta félli undir persónuverndarlög. Það yrði að passa upp á það.

Ferðamálastofa sagðist ekki hafa skoðað appið sérstaklega sem á að nota til að útfæra gjöfina. Það er fengið frá einkafyrirtæki en ekki er alveg ljóst hvort það stenst lög, hvort það fellur undir útboð eða hvort mátti fara þá leið sem var farin, að gera einhvern verðsamanburð. Appið er frá einkafyrirtæki og það verður ekki opinn hugbúnaður sem þýðir að þetta er ekki jafn vel gert og með rakningarappið sem stjórnvöld fóru af stað með vegna Covid. Opinn hugbúnaður er lykillinn fyrir því að hægt sé að vera viss um að gætt sé að persónuverndarsjónarmiðum og allir geti verið vissir um það. Höfum það á hreinu að að sjálfsögðu samþykkja Píratar ekki mál á þeim forsendum þar sem er ekki hægt að tryggja fyllilega persónuvernd.