150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

ferðagjöf.

839. mál
[20:04]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við greiðum atkvæði um frumvarp til laga um ferðagjöf. Eins og ég kom inn á í ræðu fyrr í dag er hér um að ræða mál sem er að mörgu leyti gott og styður þingflokkur Samfylkingarinnar meginmarkmið málsins, enda er hér verið að gera hvort tveggja, að styrkja innlenda ferðaþjónustu og að auðvelda Íslendingum að ferðast um og kynnast landinu. En þrátt fyrir að við hefðum viljað fara aðra leið í útfærslu á málinu og einkum þá að styðja betur við barnafjölskyldur þá teljum við að vert sé að styðja málið og munum greiða atkvæði með því.