150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

ferðagjöf.

839. mál
[20:08]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Það er alveg skýrt hver afstaða Pírata er, þetta mál er flott að mörgu leyti. Markaðurinn fær að ráða, fólk fær sjálft að ráða hvert það fer með peningana. 5.000 kr. er kannski ekki stór upphæð, en mig grunar að allt umtal um þetta skili sér í því að fólk fari af stað og þegar fólk fer af stað þá fer það að eyða meiri peningum hér innan lands. Mig grunar að málið eigi eftir að verða mjög farsælt.

Við greiðum atkvæði með málinu. Við gerðum athugasemdir við eitt atriði sem við vonuðumst til að yrði lagfært og betri fyrirvarar settir við — ég vona að hæstv. iðnaðar- og nýsköpunarráðherra passi upp á það — en það eru persónuverndarsjónarmiðin eins og Persónuvernd segir að verði að fylgja samkvæmt lögum. Ef mögulegt hefði verið að fara þá leið varðandi appið sem farin var með smitrakningarappið og við hefðum verið fullvissuð um það fyrir fram, þá hefðu Píratar stutt málið alla leið. En við getum ekki á endanum greitt atkvæði með málinu, þó að við greiðum atkvæði með því hérna núna, þegar persónuverndarsjónarmiðin eru ekki fulltryggð.