150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

um fundarstjórn.

[12:36]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Á tyllidögum tölum við um að breyta vinnubrögðum hér á þingi, meira samráð og samtal, en því miður er það ekki staðreyndin. Eftir þá uppákomu sem varð á velferðarnefndarfundi í gær er maður gjörsamlega orðlaus. Þarna var verið að rífa út lyfjalög, mál sem á að fara vandlega í og okkur ber að vanda vel til verka í. Ef við eigum einhvers staðar að vanda okkur þá er það þarna. 27 umsagnir hafa borist. En nei, nei. Það á bara að rífa málið út í algerri andstöðu við minni hlutann. Og hvers vegna? Hvers vegna í ósköpunum liggur meiri hlutanum lífið á og rífur út svona mikilvægt mál, gjörsamlega vanreifað og langt frá því að vera tilbúið? Hver er tilgangurinn?