150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

um fundarstjórn.

[12:43]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég get tekið undir orð flestra sem hér hafa talað. Hér ríkir fulltrúalýðræði sem þýðir að hver og einn af þeim 63 sem eiga sæti á Alþingi er með skýrt umboð og beint umboð frá almenningi í landinu. Hver og einn á rétt á því að tjá sig um mál, viðra skoðanir sínar og það sem er verst við Alþingi er að í nefndunum skapast þetta tækifæri til að ræða sig saman að niðurstöðu. Því miður hefur það gerst í hv. velferðarnefnd að meiri hlutinn í nefndinni, og þá sérstaklega ákveðnir aðilar þar inni sem vill svo til að eru líka í atvinnuveganefnd, fara fram með þeim hætti að ekkert svigrúm er gefið fyrir samtal til að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Þetta gerir það að verkum að málin eru rifin út úr nefndinni algjörlega ótilbúin. Þau eru ekki tilbúin og það skiptir engu máli hvað hv. þm. Birgir Ármannsson segir um hvað er alvanalegt. Hann hefur kannski bara ekkert verið upplýstur um það, (Forseti hringir.) af því að hann er ekki nefndarmaður í hv. velferðarnefnd, að engin umræða hefur enn átt sér stað (Forseti hringir.) um það mál sem nú á að fara að rífa út (Forseti hringir.) á einhverjum aukafundi sem forseti hefur gefið leyfi fyrir (Forseti hringir.) á þingfundartíma í dag. Það hefur engin umræða átt sér stað meðal nefndarmanna, enda fengum við nefndarálit kl. 11.28 áðan.