150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

um fundarstjórn.

[13:37]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (ber af sér sakir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir að gefa mér orðið en get ekki ábyrgst það að aðrir finni sig ekki knúna til að óska einnig eftir því að fá orðið. Ég get ekki borið ábyrgð á tilfinningum annarra þingmanna en kem hér til að bera af mér sakir. Vegna orða hv. þm. Höllu Signýjar Kristjánsdóttur sem sagði mig hafa sagt hana beita ofbeldi þar sem hún væri bæði í hv. velferðarnefnd og hv. atvinnuveganefnd ætla ég að lesa hér orðrétt, með leyfi forseta, það sem sagt var. Ég sagði:

„Því miður hefur það gerst í hv. velferðarnefnd að meiri hlutinn í nefndinni, og þá sérstaklega ákveðnir aðilar þar inni sem vill svo til að eru líka í atvinnuveganefnd, fara fram með þeim hætti að ekkert svigrúm er gefið fyrir samtal til að komast að sameiginlegri niðurstöðu.“

Þá vil ég einnig, með leyfi forseta, vitna í seinni ræðu mína hér í dag þar sem ég sagði:

„Ég minni á að í gær var verið að vinna mál er varðar innflytjendur og móttöku flóttafólks þar sem hv. þm. Halla Signý Kristjánsdóttir er framsögumaður. Hún leyfði umræðu um málið. Það varð umræða í nefndinni. Við komum með tillögur, minni hluti og meiri hluti ræddu saman, og við afgreiddum málið úr nefndinni öll saman. Þetta er hægt ef framsögumenn mála í nefndinni leyfa það, hún“ — og vísaði þar í hv. þm. Höllu Signýju Kristjánsdóttur — „leyfði það í gær. Hún leyfði okkur að hafa skoðanir á málum.“ (Forseti hringir.)

Þar með er ég að segja: Hún hafði rangt fyrir sér (Forseti hringir.) um það sem hún var að bera á mig.