150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

ársreikningar.

447. mál
[15:32]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég er að átta mig á því að þetta er frekar tæknilegs eðlis. Ræða þingmannsins var um hugmyndir, til þess að víkka út umræðuna. Það er góðra gjalda vert vegna þess að það er, eins og ég kom inn á í fyrri ræðu minni, mjög dýrt fyrir lítil fyrirtæki að standa skil á þessu öllu saman vegna þess að fæstir hafa tök á að gera það sjálfir og þurfa að kaupa sér vinnu. Hún er dýr og þess vegna blökuðu eyrun á mér þegar þingmaðurinn flutti þessa ræðu og, að mér skildist, sá það fyrir sér að við gætum notað miklu meira þær rafrænu upplýsingar sem fylgja nútímanum. Við þurfum þá að einhenda okkur í það sem þingmenn að koma með tillögur í þeim efnum. Er þingmaðurinn ekki sammála mér um það?