150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

húsnæðismál .

926. mál
[18:57]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ráðherra kemur með málið inn í þingið og mælir fyrir því. Afgreiðsluhraði málsins, eða með hvaða hætti menn sjá fyrir sér að vinna það, er síðan í höndum þingnefndarinnar og Alþingis.

Um leið og ég hef mikinn skilning á því að þingnefnd þurfi að gefa sér tíma til að fara yfir mál, gaumgæfa þau, fá til sín gesti og velta fyrir sér öllum hliðum er líka mikilvægt að þetta mál sé afgreitt sem fyrst, m.a. fyrir einstaklinga sem geta nýtt sér úrræðið og gagnvart byggingarmarkaðnum almennt. Ég held að það sé ljóst að nefndin verður að skoða með hvaða hætti hægt sé að koma því við.

Ráðherra gerir sér grein fyrir því að það er knappur tími til þingloka en engu að síður er ég sannfærður um að ef nefndin vinnur hratt og vel er hægt að vinna málin.

Hins vegar segi ég: Það er í höndum nefndarinnar með hvaða hætti hún tekur við málinu. Ráðherra skipar nefndinni ekki fyrir verkum.

Varðandi tekjuþak var samið um (Forseti hringir.) að fram kæmi frumvarp um hlutdeildarlán. Einstaka útfærslur hafa verið að breytast og (Forseti hringir.) það er ekki óeðlilegt þegar um frumvörp er að ræða. En ég tel (Forseti hringir.)að það eigi ekki að hafa bein áhrif á að við erum að koma fram með þetta frumvarp þó að skiptar skoðanir séu um einstaka þætti í því. (Forseti hringir.) Það er ekki óeðlilegt í stórum málum.

Ég svara seinni spurningunni á eftir og bið forseta afsökunar.

(Forseti (WÞÞ): Fyrst svo er þá lætur forseti af því að minna ræðumenn á að virða ræðutíma.)