150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

húsnæðismál .

926. mál
[19:03]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir. Almennt er ég þeirrar skoðunar, og það var hluti af lífskjarasamningnum, að við skyldum í auknum mæli nýta ekki bara séreignarsparnaðinn heldur líka tilgreindu séreignina, sem er í rauninni hluti af skyldusparnaði eða 3,5%. Það er eitt af því sem gert er ráð fyrir í lífskjarasamningnum og um það munu koma fram frumvörp hér. Það er hæstv. fjármálaráðherra sem hefur það hlutverk að leggja það fram og það var hluti af lífskjarasamningnum.

Almennt er ég þeirrar skoðunar að skynsamlegt sé að aðstoða fólk við að komast í eigin fasteign. Ég er líka þeirrar skoðunar að það sé skynsamlegt að nýta til þess lífeyrissparnaðarkerfið með einhverjum hætti, hvort sem um er að ræða séreignarsparnað eða hluta af almenna sparnaðinum. Það getur skipt miklu máli fyrir fólk á efri árum að eiga eign í eigin húsnæði. Við höfum fengið upplýsingar um að það hefði skipt sköpum fyrir einstaklinga sem eru komnir á efri ár ef þeir hefðu átt eigið húsnæði þegar þeir komust þangað í lífinu. Þess vegna hef ég verið talsmaður þess að hluti lífeyrissparnaðar sé nýttur til þess að (Forseti hringir.) styðja við kaup á fyrstu fasteign.