150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

húsnæðismál .

926. mál
[19:05]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka ráðherra svarið. Ég velti fyrir mér hér í síðari umferð skilyrðinu um nýjar íbúðir. Ráðherra fór yfir að það væri til þess að stemma stigu við því sem gæti orðið afleiðingin, þ.e. hækkandi fasteignaverði. Það er talað um 400 íbúðir að hámarki. Ég þekki það ekki, ég geri ráð fyrir að það sé eitt af því sem velferðarnefnd veltir upp, hvort þær dugi til að hafa áhrif á verðmyndun á húsnæðismarkaði í heild. Við þurfum að fá svar við því vegna þess að þetta heftir á ákveðinn hátt tækifæri fólks til að ráða eigin búsetu, en þetta eru svona hugleiðingar.

Varðandi markmið um nýsköpun þá hefði ég gjarnan viljað sjá að áhersla væri lögð á einhvers konar breytingar á reglum í byggingarreglugerð sem flestir vita að eru tyrfnar og kannski þær sem standa helst í vegi fyrir nýsköpun í þessum bransa.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra nánar út í það sem stendur á bls. 2, með leyfi forseta:

„Aðeins er lánað fyrir nýjum íbúðum sem hafa verið samþykktar af Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sem hagkvæmar íbúðir á grundvelli samnings byggingaraðilans við stofnunina.“

Ég hef áhuga á því að heyra meira um þennan samning því að þarna sé ég einhver flögg um að við (Forseti hringir.) gætum verið að búa til þarna (Forseti hringir.) farvegi eða leiðir fyrir einhverja aðila og aðra ekki. Ég átta mig ekki á því hvað er verið að tala um þarna.