150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

húsnæðismál .

926. mál
[19:06]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi byggingarreglugerðina. Það er líka hluti af lífskjarasamningi að við höfum skuldbundið okkur til að einfalda byggingarregluverkið. Við erum með frumvarp í undirbúningi sem nú er í samráði og hefði verið lagt fram á þingi ef Covid hefði ekki komið til, en það verður lagt fram á haustþingi.

Varðandi samning um þessar nýju íbúðir þá erum við bara að vinna eftir fyrirmynd frá Englandi og Skotlandi, sem byggist í rauninni á því að verktaki sem uppfyllir skilyrði um hagkvæmar íbúðir, sem á eftir að forma betur í samtali við iðnaðinn, fái vottun á því þegar hann fer af stað að íbúðin sé hagkvæm. Síðan fylgir sá stimpill viðkomandi íbúð í gegnum byggingarferlið og einstaklingurinn sem síðan kaupir hana getur þá leitað í þessi lán fyrir þeirri íbúð. Það er í rauninni það eina sem býr að baki. Þetta snýst ekki um að velja hverjir fái að vera með íbúðir og hverjir ekki, heldur bara að stimpillinn sem þarf til að fá hlutdeildarlán liggi fyrir áður en farið er af stað svo einstaklingurinn (Forseti hringir.) viti það þegar hann er að skoða íbúðir á fasteignasölu.