150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

húsnæðismál .

926. mál
[19:15]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þarna er komið eitt þeirra ákvæða sem er alveg ástæða til að ræða með hvaða hætti sé skynsamlegt að hafa. Hins vegar vona ég að þingmaðurinn sé ekki það orðlaus áður en ég svara gagnvart þessu máli að hann telji á þessari forsendu einni saman sé gott mál orðið slæmt.

Það sem ég vil hins vegar segja um þetta er að hugsunin að baki, rökin fyrir þessu eru þau að menn eru að velta því fyrir sér að stuðningurinn nýtist fyrst og síðast þeim hópum sem eru í þessum tekjulægri lögum samfélagsins. Ef einstaklingi miðar hins vegar mjög vel áfram í lífinu, kemst í mjög hátt launaðar stöður, hefur mjög mikla greiðslugetu, taki við vextir til að hvetja til þess að fjármagnið komi til baka þannig að hægt sé að úthluta því á nýjan leik til einhverra sem eru í þeirri stöðu sem þessi einstaklingur var í áður en hann tók lánið. Það er hugsunin á bak við þetta. Það eru rök með og á móti í þessu efni. En hins vegar held ég að það sé ekki úrslitaatriði gagnvart því hvort þetta mál er gott eða slæmt vegna þess að ég held að það nái markmiði sínu mjög vel, hvort sem það er með þessum hætti eða einhverjum öðrum.