150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

húsnæðismál .

926. mál
[19:35]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Við fjöllum um frumvarp til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál, hlutdeildarlán. Því miður verð ég að segja að það er stórfurðulegt hvernig þetta mál er sett upp. Eins og fram kom í andsvari mínu áðan er ég eiginlega orðlaus yfir þeim rosalegu völdum sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun fær, bæði til vaxtaákvarðana og í eftirliti með launaþáttum. Hún er að verða eins og kóngur í íbúðalánaríkinu og hefur ótrúleg völd sem ég tel vera komin langt út fyrir það sem eðlilegt getur talist hjá ríkisstofnun, hún má meira að segja ákveða vexti. Ég skil bara ekki að ekki sé a.m.k. sett inn hvaða vexti hún megi setja á þessi blessuðu lán sem fólk þarf að borga. Það er heldur ekki sagt hversu mikið tekjurnar mega aukast. Mega þær aukast um 1.000 kr. á mánuði eða 10.000 eða 100.000 kr.? Verða vextirnir 1, 2 eða 5%? Þetta er hreinlega með ólíkindum.

Það er annað sem ég óttast. Það kemur skýrt fram í frumvarpinu, orðrétt, með leyfi forseta:

„Aðeins er lánað fyrir nýjum íbúðum sem hafa verið samþykktar af Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sem hagkvæmar íbúðir á grundvelli samnings byggingaraðilans við stofnunina.“

Hvað segir þetta okkur? Jú, það þarf að semja fyrir fram um þetta. Þar af leiðandi þarf í fyrsta lagi að finna ódýra lóð, síðan þarf að átta sig á því hversu dýrar íbúðir má byggja á viðkomandi lóð. Ég sá tölurnar: Fjögurra herbergja íbúð, 42,5 milljónir. Það var í einhverju blaði um daginn. Ég veit ekki hvort það er rétt, en ef það er rétt tala þá veit ég ekki hvaða íbúðir er verið að bjóða upp á. Ég sá myndband þar sem verið var að byggja íbúðir í Svíþjóð og gámum staflað upp, hverjum ofan á annan. Ég get ímyndað mér að það sé ódýrt. Eins og ég sagði í andsvörum þá óttast ég að þarna sé verið að búa til fjölbýlishús þar sem við segjum: Þessi hús eru byggð eins ódýrt og hægt er og hér búa þeir sem hafa lægstu tekjurnar. Það væri ömurlegt ef við gerðum það. Þess vegna get ég ekki skilið að hér sé verið að skilyrða þetta á þennan hátt.

Ég veit um einstaklinga sem verið hafa á leigumarkaði og leigja fyrir rúmar 200.000 kr. á mánuði en fá ekki greiðslumat til að kaupa íbúð og borga 100.000 kr. á mánuði. Hversu vitlaust er það að við skulum vera í slíkri aðstöðu að sagt sé við fólk þarna úti: Þið leigið bara, borgið 200.000–250.000 kr.? En ef það fyndi húsnæði og fengi jafnvel 100% lán og greiðslan væri 100.000 kr. á mánuði þá er sagt: Nei. Ef það gæti átt 5% í húsnæðinu, gæti borgað það, þá er sagt: Nei, þið fáið ekki greiðslumat. Þið getið bara haldið áfram að leigja fyrir 200.000 kall og verið í algeru svelti. Þarna kemur upp ákveðin staða.

En hvar er hægt að fá svona ódýrar og góðar íbúðir? Jú, við gætum sennilega fengið þær í næstu sveitarfélögum, kannski á Akranesi, Þorlákshöfn eða í Hveragerði. En hvað erum við þá að gera? Erum við að fara í hreppaflutninga? Segja við fólk: Þú ert með svo lágar tekjur að þú getur ekki verið að þvælast í Reykjavík, komdu þér út úr bænum? Ég veit að það var sagt við fólk í sveitarfélagi á höfuðborgarsvæðinu þegar það reyndi að leita sér hjálpar: Þú átt ekki möguleika á að búa í þessu sveitarfélagi. Þú verður að fara út á land ef þú ætlar að reyna að lifa mannsæmandi lífi. Það er svolítið undarlegt fyrirbrigði.

Annað í þessu er að það mega bara vera 400 íbúðir á ári næstu tíu árin. Ef það verður rosaleg ásókn í þetta sinn, maður veit ekki hvernig það verður, þá verður kannski einhver nr. 401 og hann þarf mun meira á húsnæði að halda en sá sem er nr. 279, mun verr staddur. En þá er sagt við hann að hann þurfi að bíða í eitt ár, fara aftur í röðina. Er ekkert plan B ef þörfin verður mikil og 600–700 manns sækja um í hvelli? Eiga þeir einstaklingar að bíða í eitt ár eða tvö ár?

Segjum að fjölskylda sé búin að koma sér fyrir í leiguhúsnæði í ákveðnu sveitarfélagi, komin með börnin í skólann og leikskólann og vilji vera í sveitarfélaginu áfram. Þar er nýbygging sem hún gæti hugsað sér að fara í. Hún er kannski 5–6 millj. kr. dýrari en nýbyggingin sem er eyrnamerkt að megi kaupa. Þá er bara sagt við fólk: Þið megið ekki kaupa þetta, þið verðið að rífa upp börnin, fara í annan skóla eða leikskóla, fara í eitthvert úthverfi.

Þetta getur ekki verið eðlilegt og er ekki eðlilegt og er eiginlega fáránlegt. Ég segi við okkur öll hér inni: Ekkert okkar myndi vilja láta koma svona fram við okkur. Við skulum bara hafa hlutina eins og þeir eru. Ef við erum að tala um að einstaklingar megi bara fjárfesta í nýrri íbúð, þá velja þeir sína íbúð. Höfum fjárhagslegu viðmiðin svolítið rúm þannig að fólk geti þetta. Við vitum að fólk er skynsamt, 99% þess er mjög skynsamt og er ekkert að fara út í neina vitleysu en vill losna við óhugnanlega háa leigu og reyna að eiga eitthvert líf og borga skikkanlega upphæð af lánum þannig að það geti lifað.

Annað sem ég rak augun í er að hér er talað um að 30 eða 40% af tekjum megi fara í þetta. (Gripið fram í: 40%.) Já, að 40% af tekjum gætu farið í þetta. Ef við tökum einstakling sem er með 300.000 kr. útborgað þá sjáum strax að sá einstaklingur fengi ekki greiðslumat. Þarna eru ýmsar hindranir.

Ég vona heitt og innilega að við getum fengið hagsmunasamtök og aðra til velferðarnefndar og reynt að koma hlutunum í lag og gera þetta betur. Ég get ekki ímyndað mér annað en að tilgangurinn með því að leggja málið fram sé m.a. að við tökum það inn í velferðarnefnd og vinnum það betur, reynum að finna út hjá þeim sem best þekkja hver þörfin er og hvernig eigi að gera þetta. Þá held ég að við séum í ágætum málum.

Það þarf að breyta tekjuviðmiðunum, þau eru allt of skörp. Við erum að útiloka ákveðinn hóp sem ekkert í rosalega góðum málum, er í rándýru leiguhúsnæði. Við vitum af fólki sem er með allt að 300.000–350.000 kr. í leigukostnað og til að standa undir því þarf miklar tekjur. Hugsum okkur hjón sem eru með 700.000 kr. útborgaðar, þá fara 50% af tekjum þeirra í leigu. Meðan maður er í þeirri stöðu er ekki hægt að safna, maður getur það ekki.

Síðan verð ég að taka undir með hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur þegar hún benti á að það væri umhugsunarefni að það skuli vera skilyrði um að setja séreignarsparnað í þetta. Hversu lengi? Í 25 ár eða þar til lánið er uppgreitt eða hver á að ráða því? Er það Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sem ræður því hversu lengi það þarf að nota séreignarsparnað í lánið? Það kemur hvergi fram, það þarf að fá niðurstöðu í það.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Við eigum eftir að ræða þetta vel og vendilega í velferðarnefnd og aftur þegar málið kemur aftur til þingsins, en skelfilegast er eiginlega að við eigum að afgreiða þetta mál fyrir 1. júlí. Ég veit ekki hvernig við eigum að fara að því í velferðarnefnd með öll önnur mál. Það verður svolítið púsluspil, en vonandi tekst okkur það. Og vonandi verður hægt að gera þetta þannig að öllum líki. Það er áskorun og við tökum henni.