150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

húsnæðismál .

926. mál
[20:11]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Ég þakka hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni fyrir andsvarið. Þetta er nákvæmlega málið. Annars vegar rísa nýjar byggingar þar sem pláss er fyrir þær, það er eitt, og ef þær eiga að vera ódýrar munu þær rísa þar sem er ódýrt landsvæði. Hvorug þessara forsendna er endilega neikvæð, sérstaklega ekki þegar um er að ræða fyrstu kaupendur, ungt fólk og allt það. En stóra málið er það sem ég varpaði fram og gagnrýndi, að þá er búið að taka ákveðið val af fólki og það kemur sérstaklega illa við eldri hópinn. Ég hef ekki svar við þessu akkúrat núna, en fyrsta skrefið er að kalla eftir upplýsingum. Það kom fram í svari hæstv. ráðherra fyrr í dag að stór hluti af ástæðunum fyrir þessu tiltekna fyrirkomulagi er að koma í veg fyrir að þau hagkvæmu kjör sem þarna bjóðast valdi þenslu á öllum markaðnum og hækki verð alls staðar. Ég er ekkert endilega sannfærð um að svo muni fara. Ég held að þetta séu of fáar íbúðir til þess. En það ætti að vera einfalt fyrir okkur í nefndinni að kalla eftir gögnum um þetta og meta. Þá erum við kannski farin að horfa öðruvísi á þetta.

Það væri líka hægt að ímynda sér að fólk sem getur sótt um úrræðið, þetta ódýra lán, ef svo má segja, fyrir tiltekinni íbúð, færi í gegnum eitthvert mat. Það svarar frekar áhyggjum af endingartíma íbúðarinnar og ríkið fái ekki til baka fjárfestinguna. Það væri hægt að fara einhverja slíka leið sem er kannski seinlegri en ég hugsa að margir myndu kjósa að fara þá leið. Það á svo sem ekkert endilega að gera það, við erum ekki að kljást við gríðarlegan fjölda hérna, en ég held að þetta sé ein af þeim spurningum sem er áhugavert að velta upp.