150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

húsnæðismál .

926. mál
[20:15]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Frú forseti. Nei, eitt og sér er þetta ekki ávísun á vanda, ég tek undir það, ef hv. þingmaður átti við það. Ég er hins vegar ein þeirra sem verða alltaf órólegir þegar reglugerðarheimildir eru of víðtækar og lögin of einföld. En ég er sammála, ég las hv. þingmanninn þannig að svo lengi sem reglurnar eru skýrar og gegnsæi, fólk veit að hverju það gengur, er þetta ekki endilega vandamálið. En við getum samt tekið sem dæmi. Það stendur í 2. gr. um hlutdeildarlán, með leyfi forseta:

„Lánveitingar samkvæmt þessari grein takmarkast við heimildir í fjárlögum til útlánaflokksins hverju sinni.“ — Það gefur í sjálfu sér augaleið. — „Hafi heimild samkvæmt fjárlögum verið fullnýtt er Húsnæðis- og mannvirkjastofnun óheimilt að samþykkja umsókn um lán þrátt fyrir að umsækjandi uppfylli skilyrði fyrir því.“

Þarna erum við ekki að tala um heimildir heldur er stofnuninni ekki heimilt. En þá kemur spurningin: Hversu hratt má hún tæma þessa heimild? Hefur stofnunin sjálfdæmi um það? Er eðlilegt að hafa einhver mörk þannig að þetta dreifist nokkuð jafnt og einhverjir öflugir umsækjendur séu ekki búnir að tæma sjóðina ansi snemma? Það eru þessir hlutir sem kalla á alveg gríðarlega mikið gegnsæi og skýrar reglur þannig að menn viti að hverju þeir ganga. Þá held ég að þetta eitt og sér sé ekki stóra vandamálið og ég er sammála því sem hv. þingmaður segir með vexti og annað slíkt. Það ákveður einhver vexti. Það er bara þannig. Það er klárt að ef þetta á að vera eftirsóknarvert úrræði þurfa þessir vextir að vera í ákveðnu hlutfalli við þá vexti sem gilda á almennum markaði, það er sjálfdautt ef menn ætla að spila þetta öðruvísi. Þannig að það er kannski ekki stóra málið en áhugavert engu að síður.