150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

húsnæðismál .

926. mál
[20:31]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu og ég hét því að ég kæmi hér í andsvar við hann þar sem hann komst ekki í andsvar við mig í framsöguræðu minni.

Fyrst varðandi það að mér finnst þingmaðurinn í aðra röndina gefa í skyn að engin eftirspurn verði eftir íbúðunum, og það hefur svolítið verið í umræðunni hér, vegna þess að skilyrðin séu svo ströng. Í hina röndina er gefið í skyn að það séu allt of fáar íbúðir og þess vegna eigi ekki að skilyrða íbúðafjölda. Gott og vel. Látum það liggja á milli hluta. Svo að það sé sagt eru til talsvert miklar greiningar í kringum þetta, bæði sem ráðuneytið vann og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og eins voru fengin utanaðkomandi fyrirtæki. Fyrirtækið Summa kom talsvert að þessari vinnu og gert er ráð fyrir að þau skilyrði sem sett eru nái til sjö tekjutíunda. Í hverri tekjutíund eru um 24.000 manns. Þó má hins vegar gera ráð fyrir að lægstu þrjár tekjutíundirnar séu í öðrum úrræðum vegna þess að þær hafi einfaldlega ekki ráðstöfunarfé til að geta yfir höfuð keypt sér eigið húsnæði. Þær geta verið í félagslegu húsnæði á vegum sveitarfélaganna, jafnvel eitthvað í almennum íbúðum o.s.frv. Það má gera ráð fyrir að þetta séu kannski þrjár tekjutíundir, 24.000 manns í hverri, þannig að þrefalt það er sú tala sem unnið er með og má segja að sé í öllum þessum greiningum og sjálfsagt fyrir nefndina að setja sig frekar inn í það.

Síðan varðandi breytingar á frumvarpinu þá held ég að ég nái ekki að svara því í þessu andsvari en ég mun sannarlega gera það í seinna andsvari við þingmanninn.