150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

húsnæðismál .

926. mál
[20:35]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þá er það seinni hlutinn sem sneri að íbúðafjöldanum. Eftir samtal við aðila vinnumarkaðarins og við iðnaðinn sem tók m.a. þátt í kynningu málsins og hefur komið að vinnslu þess töldu menn — miðað við hversu byggingamarkaðurinn er kominn skammt á veg í því að þróa góðar, vandaðar, hagkvæmar íbúðir, við sjáum fréttir núna af ýmsum verkefnum þar sem verið er að byggja góðar, hagkvæmar íbúðir sem eru ódýrari, nýlega var kynnt stórt verkefni á höfuðborgarsvæðinu sem sneri m.a. að því — að ekki væri hægt að fara af stað með meira en 400 íbúðir að svo stöddu. Breytist það eitthvað þá er hægt að taka afstöðu til þess. Löggjafarþing framtíðarinnar geta gert það en ég held að það sé erfitt og myndi skapa falskar vonir líka að koma fram með íbúðafjölda sem atvinnulífið sjálft telur að það geti ekki byggt.

Síðan spurði þingmaðurinn hversu lengi frumvarpið hefði verið í samtali. Auðvitað er það þannig að þegar lífskjarasamningurinn kom fram var ekki byrjað að smíða þetta frumvarp, svo því sé haldið til haga. Hins vegar er alveg ljóst að frumvarpið og sú mynd sem var á því var kynnt í lok síðasta árs fyrir m.a. fjármálaráðuneytinu. Það voru talsverðar athugasemdir við það þá. Í framhaldinu voru unnar frekari greiningar o.s.frv. Ég hefði gjarnan viljað geta lagt frumvarpið fyrr fram.

En það er hins vegar svo, við skulum hafa skilning á því líka, að þegar við ræðum um róttækar lausnir á húsnæðismarkaði sem ríkisstjórnin ætlaði sér fram með, sem lofað var í lífskjarasamningnum, þá eru auðvitað skiptar skoðanir um útfærslur og strauma í þeim efnum. Ég er talsmaður þess að við göngum af róttækni fram til þess að tryggja stöðu tekjulægstu hópanna í samfélaginu. Þetta frumvarp gerir það sannarlega. En getum við gengið lengra? Getum við gert meira? Já, við getum það alltaf á hverjum tíma. Þetta er hins vegar skref. Við erum komin af stað. (Forseti hringir.) Við erum að styðja við tekjulægstu hópana til að þeir geti keypt sér fasteign og ég er gríðarlega stoltur af því.