150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

húsnæðismál .

926. mál
[20:40]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Frú forseti. Ég tel mér rétt og skylt að taka hér til máls við 1. umr. þessa stóra frumvarps um hlutdeildarlán. Ég hygg að eiginlega á alla mælikvarða sé málið stórt. Það er stórt fjárhagslega. Við erum að tala um 40 milljarða eða svo á tíu árum en það er líka stórt á þann mælikvarða að það getur haft veruleg áhrif á íbúðamarkaðinn og hvernig hann þróast í náinni framtíð. Það er einmitt þess vegna sem ég vil kveðja mér hljóðs, aðallega til að brýna hv. velferðarnefnd til að huga vel að því hvað er verið að gera hér.

Það skal alveg viðurkennt og sagt að ég er með pínulítil ónot í maganum gagnvart þessu frumvarpi þegar kemur að þeim hraða sem mér virðist vera á því, vegna þess að þetta er stórmál. Það er ekki vegna þess að ég sé í grunninn ósammála þeirri hugmyndafræði sem liggur að baki því að í einhverjum tilfellum kunni að vera skynsamlegt að við sameinumst um að ríkið veiti hlutdeildarlán með einhverjum þeim hætti sem lagt er til. Fyrst og fremst eru þarna atriði sem ég held að sé svo mikilvægt að menn hafi í huga þegar þeir taka afstöðu til þessa máls og að hv. velferðarnefnd skoði alveg sérstaklega í meðferðinni. Ég dreg í efa að það vinnist tími til, á þessum stutta tíma, að vinna verkið með þeim hætti sem ég tel að sé nauðsynlegur til að það fái farsælar lyktir og markmið frumvarpsins, sem er gott, nái fram að ganga.

Ég ætla að fara yfir nokkur atriði. Þetta er ekki tæmandi. Mér mun ekki endast tími hér og mun örugglega þurfa að blanda mér í umræðuna þegar málið er búið að fá sína meðferð í nefnd. En ég ætla að nefna nokkur atriði og rökstyðja þau mismunandi vel og mismunandi mikið.

Í fyrsta lagi vara ég eindregið við því að hlutdeildarlánin séu til 25 ára. Ég hygg að það sé skynsamlegra að hafa þau til fimm ára, og vitna t.d. til reynslunnar í Bretlandi, en að viðkomandi lánþegi, íbúðareigandi, eigi möguleika á því að framlengja um fimm ár og hugsanlega aftur um fimm ár. Þannig þarf viðkomandi á fimm ára fresti a.m.k. að meta hvort skynsamlegt sé að greiða upp lánið, ef þróunin er sú að hann telji hag sínum betur borgið að eignamyndunin verði hans en ekki ríkisins eins og er innbyggt í þetta mál.

Í öðru lagi stingur mjög að hér sé verið að lauma inn banni — ég lít á þetta sem fyrsta skref — á lán sem eru til lengri tíma en 25 ára. Það er útgangspunkturinn í þessu frumvarpi að það skuli að jafnaði vera 25 ár. Það er að vísu mjög sérkennilegur lagatexti að nota „að jafnaði“ vegna þess að ég veit ekki hvað það þýðir, að jafnaði 25 ár, hvort það séu þessir 400 og það sé deilt í og meðallánstíminn sé þá 25 ár og sumir séu með 100 ára lán. Auðvitað er það útúrsnúningur af minni hendi en 25 ára lán er það sem menn þurfa að sætta sig við. Og hvað gerir það, frú forseti? Það vinnur beinlínis gegn markmiði frumvarpsins sem er að reyna að aðstoða og létta undir með tekjulágu fólki svo það geti eignast sína fyrstu íbúð á ævinni eða fyrstu íbúð eftir að hafa ekki átt íbúð í fimm ár.

Ég ætla að taka dæmi. Einstaklingur sem er með 400.000 kr. í mánaðarlaun tekur 25 millj. kr. íbúðalán til 40 ára. Mánaðarleg greiðslubyrði er tæpar 85.000 kr. af verðtryggðu láni og 105.000 kr. ef um óverðtryggt lán er að ræða. Sem hlutfall af útborguðum launum, vegna þess að það er auðvitað það sem skiptir máli, þ.e. af ráðstöfunartekjum, að teknu tilliti til þess að viðkomandi borgi 4% iðgjald í séreign, er greiðslubyrðin 29% af ráðstöfunartekjum. 29% í hverju mánuði. Greiðslubyrðin hækkar hins vegar um tæplega 30.000 kr. á mánuði, úr 85.000 kr. í nær 115.000 kr. ef viðkomandi neyðist til að taka 25 ára lán. 30.000 kr. greiðslubyrði aukalega með því að banna honum að taka 40 ára lán og neyða hann til að taka 25 ára lán til þess að hann eigi möguleika á því að fá hlutdeildarlán. Sem hlutfall af útborguðum launum hækkar greiðslubyrðin upp í 39%, tæplega 40%, úr 29%.

Þegar þetta er haft í huga hljóta menn að átta sig á því að það er verið að búa til mekanisma í þessu frumvarpi sem vinnur beinlínis gegn yfirlýstum tilgangi þess, sem er að létta undir með þeim sem hafa lægri tekjurnar, gera þeim auðveldara og léttara að fjárfesta í eigin húsnæði. Það er auðvitað hægt að líta á þetta á marga vegu. Það er líka hægt að segja að viðkomandi hafi þá bara efni á því að taka lægra lán eða hann þurfi að leggja fram aukið eigið fé. Þetta er atriði sem situr mjög í mér vegna þess að verið er að búa til girðingar sem koma í veg fyrir að fólk með lágar tekjur og millitekjur geti látið draum sinn rætast. Það er a.m.k. verið að útiloka það frá þessu hlutdeildarláni.

Í þriðja lagi, frú forseti, er það vafasamt í besta lagi að binda hlutdeildarlánin við kaup á nýjum íbúðum sem byggðar eru samkvæmt einhverjum samningi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og byggingarverktaka. Þetta þýðir í raun, hv. þingmenn, að nær öll hlutdeildarlánin munu renna til þeirra sem búa á höfuðborgarsvæðinu. Ég fullyrði (Gripið fram í: Þetta er bara rugl.) hæstv. ráðherra — og það er allt í lagi að hlusta einu sinni, (Gripið fram í: Ég er að hlusta.) já, þá lærir þú — ég fullyrði að það eru mjög margir staðir úti á landi þar sem ekki verður á komandi árum um neinar nýjar íbúðir að ræða sem standa þeim til boða sem vilja fá hlutdeildarlán.

Í fjórða lagi, svo ég haldi áfram, er rangt í mínum huga að skylda umsækjanda, lántakann, til að verja skattfrjálsum séreignarsparnaði sínum til lækkunar á íbúðaláni. Ég er hins vegar sammála því að öll fjárhagsleg skynsemi er í því að verja séreignarsparnaðinum sínum skattfrjálst til að greiða niður íbúðalán. En þetta er séreign, þetta er eign. Mér finnst fráleitt að ríkið skuli ætla sér að skylda einstakling til að verja séreignarsparnaði sínum með ákveðnum hætti líkt og gert er í þessu frumvarpi. Ég er alveg sannfærður um að það þarf ekki vegna þess að öll skynsemisrök segja viðkomandi: Þú skalt og átt að verja séreignarsparnaðinum skattfrjálst til þess að greiða niður íbúðalánið eins hratt og hægt er. Það eru bara fjárhagslegu skynsemisrök. En það særir tilfinningar mínar gagnvart eignarréttinum að ríkið skuli segja: Þú skalt verja ákveðnum hluta tekna þinna, eignar þinnar, með þessum hætti. Annars færðu ekki það sem er í boði.

Í fimmta lagi; jafnræðisreglan. Ég sé ekki að í frumvarpinu sé jafnræðisreglan tryggð, eiginlega þvert á móti. Það segir sig eiginlega sjálft að þegar um takmarkaða fjármuni er að ræða, líkt og frumvarpið gerir ráð fyrir, 4 milljarða á ári, 40 milljarða á tíu árum, 400 manns, er alveg augljóst að sú staða getur komið upp að mun fleiri munu óska eftir því að fá hlutdeildarlán, uppfylla öll skilyrði laganna til þeirra, en munu fá. Enginn veit hvernig verður tekin ákvörðun um hver fær já og hver fær nei, annað en að maður getur leitt líkur að því að það gildi fyrstur kemur, fyrstur fær.

Sjötta atriðið er í mínum huga stórt atriði. Það liggur ekkert fyrir hvernig Húsnæðis- og mannvirkjastofnun stendur að samningum við verktaka um byggingu hagstæðari íbúðalána. Hvernig valið verður um verktaka er óljóst. Hið sama á við um hvaða kröfur verktakarnir þurfa að uppfylla. Það eru engar kröfur gerðar til sveitarfélaga þegar kemur að hagkvæmni lóða, svo sem varðandi innviðagjöld o.s.frv.

Að lokum, fyrst ég sé að tími minn er á þrotum, frú forseti, er alveg augljóst að reglugerðarheimild sem ráðherra fær í hendur er of víðtæk og er of óljós. (Forseti hringir.) Það þarf að skrifa frumvarpið (Forseti hringir.) og reglugerðarheimildina með öðrum hætti en gert er.

(Forseti (BHar): Forseti minnir hv. þingmenn á að virða tímamörk.)