150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

húsnæðismál .

926. mál
[21:04]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Óla Birni Kárasyni fyrir afar athyglisverða og góða ræðu. Þar fór þingmaður sem talaði af skynsemi og þekkingu og væri óskandi að þetta mál væri í hans nefnd, svo ég segi satt og rétt með það. En mér þykir líka athyglisvert að hér er stjórnarþingmaður að setja út á það að þetta mál eigi að afgreiða bara einn, tveir og þrír, mál sem varðar 4 milljarða á ári og 40 milljarða næstu tíu árin í því árferði sem við búum við í dag þegar ríkissjóður er kominn í halla upp á 300 milljarða.

Ég vil þakka hv. þingmanni enn og aftur fyrir góða og skynsamlega ræðu. Ég er honum sammála í mörgu sem hann nefndi. Hann nefndi lánstímanum, staðsetninguna á húsnæðinu, gagnsæið í úthlutun o.s.frv. Allt eru þetta þættir sem ég er honum hjartanlega sammála um. Ég ætla að vona að fleiri þingmenn innan Sjálfstæðisflokksins séu sammála hv. þingmanni og leggi til að málið fái vandaða og góða umræðu. Það er alveg ljóst að full þörf er fyrir það.

Það sem ég vildi spyrja hv. þingmann sérstaklega að og fá álit hans á er vaxtalaust lán. Hann þekkir það að ekkert er til sem heitir vaxtalaust lán. Í þessu tilfelli eru það skattgreiðendur sem eru að greiða vextina í staðinn fyrir lántaka. Þetta er pólitísk ákvörðun. Ég vildi fá það frá hv. þingmanni hvort hann sé sammála þeirri aðferðafræði, hvort Sjálfstæðismenn séu sammála aðferðafræðinni í þessu máli, að skattgreiðendur niðurgreiði lán til tiltekins hóps í samfélaginu.