150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

húsnæðismál .

926. mál
[21:06]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Við höfum verið að niðurgreiða lán hér svo lengi sem ég man eftir í formi vaxtabóta og að einhverju leyti á þetta að leiða til þess að vaxtabætur muni lækka verulega. Ég er hlynntur því að hið opinbera stuðli að því að fólk hafi raunverulegt valfrelsi í húsnæðismálum. Sumir vilja ekki festa sig og vilja fremur leigja og við eigum að tryggja að til sé raunverulegur og öruggur leigumarkaður. En við eigum líka að gefa hinum, sem eru miklu fleiri, valkost. Ég ætla bara að nefna eitt. Fyrir nokkrum árum tók ég saman hvað hið opinbera, þ.e. ríkið, setti í húsnæðismál á 15 árum, á árunum 2000–2015, í formi vaxtabóta, í formi þess að setja um 60 milljarða til að koma í veg fyrir gjaldþrot Íbúðalánasjóðs og síðan í byggingu leiguíbúða. Það voru 247 milljarðar kr. sem fóru í þetta á 15 árum. Til að setja það í samhengi hefði ríkið getað afhent 40.000 fjölskyldum að gjöf 20% eigið fé í 30 millj. kr. íbúð.

Ég spyr: Þegar við horfum á þetta, að á 15 ára tímabili hafi nærri 250 milljarðar farið í opinberan stuðning, hefði ekki verið betra að fara hugsanlega þá leið sem hæstv. félagsmálaráðherra leggur til í formi hlutdeildarlána (Forseti hringir.) nema það hefði verið í formi eigin fjár sem viðkomandi hefði fengið? (Forseti hringir.) Það hefði verið alvöruaðstoð.