150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

húsnæðismál .

926. mál
[21:31]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að leggja nokkur orð í belg til að koma sjónarmiðum mínum á framfæri um frumvarpið og einstaka mál því tengd, en ekki síst til að brýna ráðherrann til dáða í frekari landvinningum þegar kemur að húsnæðismálum okkar allra. Það er ágætt að hafa það í huga sem hefur komið fram að framlagning þessa frumvarps tengist lífskjarasamningunum. Ég tek undir með þeim sem hafa óskað þess að vinnan hefði gengið hraðar og málið hefði komið hingað fyrr en ég horfist í augu við stöðuna eins og hún er og velti mér ekki of mikið upp úr því sem hefði getað orðið. Nú er það verkefni okkar að takast á við þetta af ábyrgð og festu. Við höfum sýnt á undanförnum mánuðum að Alþingi getur unnið hratt og vel þegar mikið liggur undir og ég vona innilega að okkur takist það einnig núna.

Forseti. Frumvarpið er unnið að einhverju leyti upp úr lífskjarasamningunum og þar á undan að sjálfsögðu úr stjórnarsáttmálanum eða kallast á við hann. Hér hefur verið rætt um eitt atriði í það minnsta sem ég hefði viljað koma inn á, þ.e. að stuðningurinn sé bundinn við kaup á nýju húsnæði. Þar er okkur að sjálfsögðu ákveðinn vandi á höndum. Ráðherra eru lagðar línur um það í lífskjarasamningunum þar sem frumvarpinu er ætlað að auðvelda fólki íbúðakaup þannig að þeir sem uppfylla ákveðin skilyrði geti fengið hlutdeildarlán til að brúa kröfu um eigið fé í íbúðarkaup, en líka að auka hvata fyrir byggingaraðila til að byggja hagkvæmt íbúðarhúsnæði sem hentar þessum hópum. Það kom fram í þeirri miklu og umfangsmiklu vinnu sem var unnin í aðdraganda lífskjarasamninganna um húsnæðismál að þrátt fyrir mikla uppbyggingu á íbúðum væru vísbendingar um þær hentuðu síður tekju- og eignalitlum einstaklingum.

Ég er ekki endilega sannfærður um, forseti, að eitt og sama frumvarpið hafi verið rétta leiðin til að ná þessum tveimur markmiðum, þ.e. annars vegar að auka hvata fyrir byggingaraðila og hins vegar að hjálpa tekjulágu fólki inn á húsnæðismarkaðinn. Þó sé ég ákveðna kosti, t.d. að hér er verið að horfa á þær íbúðir sem henta kannski frekar þessum hópi. En það eru gallar við það eins og hv. þm. Oddný G. Harðardóttir kom inn á í andsvari áðan. Það eru líka ákveðnir gallar við það, eins og við sem þekkjum til á húsnæðismarkaði vitum, að nýtt húsnæði er almennt dýrara en hið eldra o.s.frv. Ég hefði talið að að einhverju leyti væri skynsamlegt að vera með hreint frumvarp um félagslegan stuðning því að ég lít á þetta þannig að við séum að koma hér upp vísi að félagslegu húsnæðiskerfi. Það var illu heilli að hið góða félagslega húsnæðiskerfi sem við byggðum upp með samtakamætti alþýðunnar hér áratugum saman var lagt af. Við erum hér að koma á vísi í þá átt aftur. Þess vegna er ég ekki í nokkrum vafa um að þetta mál á heima í hv. velferðarnefnd, ég lít á það sem hluta af félagslegu húsnæðiskerfi. Mér finnst mikilvægt að gagnrýnisraddir hafa heyrst um tekjutengingu í frumvarpinu. Án þess að ég nefni einhverjar tölur í því samhengi finnst mér mikilvægt að tekjutengingar séu í frumvarpinu af því að ég lít á þetta sem félagslegan húsnæðisstuðning. Það er því fínt og gott að málið sé komið fram og samþykkt þess mun bæta stöðu margra. Svo einfalt er það.

Mig langar hins vegar, forseti, að brýna hæstv. ráðherra líka til dáða varðandi annað mál sem tengist húsnæðismarkaðnum og horfa þannig heildstætt á þann markað og í raun líf okkar allra. Í stjórnarsáttmálanum er ekki bara talað um að hjálpa fólki að eignast húsnæði heldur er líka talað um leigjendur. Það er þjóðfélagshópur sem hefur allt of lengi legið óbættur hjá garði, alveg frá hruni. Stuðningsaðgerðir stjórnvalda hafa mun meira beinst að fólki sem á eigið húsnæði eða snúist um að hjálpa fólki að eignast eigið húsnæði.

Nú er kannski rétt að taka það fram, forseti, á þessum tímum gegnsæis og hagsmunaskráningar að sjálfur er ég leigjandi og þekki því ágætlega þann markað, óvissu hans og öryggisleysi. Ég get ekki varist þeirri hugsun að þessar aðgerðir, fínar sem þær eru, séu einnig liður í því sem við höfum kannski allt of lítið rætt sem samfélag eða við hér á Alþingi, ég man ekki eftir miklum umræðum um það, þ.e. að ýta undir séreignarstefnu. Við virðumst trúa því að allir vilji eiga eigið húsnæði. Og já, við höfum kannanir sem sýna að margir leigjendur vilja eignast húsnæði. Hversu stór hluti það er sem vill það vegna þess öryggisleysis sem er á leigumarkaðnum er svo annar handleggur.

Hér var sagt fyrr í kvöld að við værum að hjálpa fólki að eiga val. Við eigum að gera það líka varðandi leigjendur. Ég veit að á þingmálaskrá hæstv. ráðherra er frumvarp um réttarstöðu leigjenda. Ég vil brýna hæstv. ráðherra til góðra verka þar því staðreyndin er sú að sá hópur sem býr við íþyngjandi húsnæðiskostnað er mun stærri meðal leigjenda en þeirra sem eiga húsnæði. Þetta frumvarp getur kannski hjálpað einhverjum þeirra að hætta að vera leigjendur og verða eigendur og það dregur kannski úr húsnæðiskostnaði o.s.frv., en staðan er engu að síður sú að 2018 eru tæp 20% leigjenda með það sem kallað er íþyngjandi húsnæðiskostnaður eða yfir 40% af ráðstöfunartekjum og tæp 8% húseigenda.

Við höfum líka gert kerfið okkar þannig að aðgangur leigjenda að því fjármagni sem fjölskyldur þurfa oft og tíðum til að fjármagna hitt og þetta, með því að taka lán, verður æ takmarkaðri. Við höfum á sama tíma afnumið ábyrgðarmannakerfið, sem er að mörgu leyti fínt en verður til þess að leigjendur eru ekki í þeirri stöðu að geta sótt á sama hátt og eigendur í lánsfjármagn. Þannig ýtum við fleirum og fleirum í það að eiga. Það er kannski allt í góðu en við skulum gera það með opin augu. Við skulum líka gera það með opin augu fyrir því að hluti fólks verður á leigumarkaði, hvort sem er um skemmri eða lengri tíma, og stöðu þess þarf að bæta.

Ég hvet hæstv. ráðherra til dáða í þeim málum af því að ég skynja það að hann er að horfa á heildarmyndina. Þetta frumvarp er biti í það púsl sem hæstv. ríkisstjórn er að púsla saman varðandi húsnæðismarkaðinn og aðgerðir sem þarf að grípa til þar. Þetta er gott innlegg. Þetta er vísir að félagslegu húsnæðiskerfi, eins og ég sagði, og ásamt öðrum frumvörpum og ýmsum öðrum góðum aðgerðum sem þegar hafa verið boðaðar mun staðan á húsnæðismarkaði almennt batna til muna, bæði hvað þetta varðar og eins réttarstöðu leigjenda eins og ég ræddi um.

Ég hvet hv. velferðarnefnd til dáða við vinnslu þessa frumvarps og okkur öll og brýni okkur öll um mikilvægi þess að við náum að afgreiða þessi mál.