150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

húsnæðismál .

926. mál
[21:41]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé fyrir ágæta ræðu. Ég verð að viðurkenna að ég missti af fyrri hluta ræðu hv. þingmanns. (KÓP: Þetta er allt á netinu.) Já, ég veit það og ég mun horfa mörgum sinnum á ræðuna þar, það er alveg öruggt. En mér þótti gæta á köflum ákveðins efasemdartóns í ræðu hv. þingmanns hvað það varðar að þarna væri farin skynsamlegasta leiðin í þessum efnum.

Tíminn sem við höfum er mjög knappur. Þinglok eru áætluð í lok annarrar viku. Þetta er mikilvægt mál sem snýr að 4 milljörðum í ríkisútgjöldum á hverju ári í tíu ár, 40 milljarðar samanlagt. Mig langar til að spyrja hv. þm. Kolbein Óttarsson Proppé: Hvað telur hv. þingmaður mikilvægast að færa til betri vegar miðað við frumvarpið eins og það er núna?