150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

húsnæðismál .

926. mál
[21:42]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður á gott kvöld í vændum þegar hann kemst í að horfa á upptökur af ræðu minni allri eftir að þingfundi lýkur. Þar mun hann sjá það sem ég ætla að segja frá í örstuttu máli frá. Ég dró fram efasemdir mínar um beinlínis grunninn að frumvarpinu, þ.e. hið tvíþætta mark þess annars vegar að hjálpa tekjulágu fólki að eignast eigið húsnæði og hins vegar að vera hvati fyrir byggingaraðila til að byggja hagkvæmt íbúðarhúsnæði.

Ég sé hins vegar ákveðinn kost í því; það verður þá til meira af húsnæði af þeirri gerð sem rannsóknir hafa sýnt að vanti einmitt. Þar að auki er ég þeirrar gerðar að ég þarf ekki alltaf að hafa rétt fyrir mér. Í þessu tilviki held ég að það ekki sé endilega skynsamlegt að hafa þessi tvö markmið samþætt, en hins vegar er verkalýðshreyfingin í landinu búin að komast að því að svo sé, ásamt hæstv. ríkisstjórn og Samtökum atvinnulífsins. Aðilar vinnumarkaðarins hafa náð saman um að þetta sé leiðin.

Þá tek ég af hinn ímyndaða hatt, hneigi höfuðið og segi: Allt í lagi. Þetta er leiðin sem þið viljið fara. Ég hefði kannski farið aðra leið en ég hlusta þegar heildarsamtök vinnumarkaðarins tala og fulltrúar þess fólks sem byggðu upp hið gamla, góða, félagslega húsnæðiskerfi sem við bjuggum við og máttum vera stolt af áratugum saman áður en ljótar krumlur rifu til jarðar. Ég hlusta og segi: Ókei, þetta er leiðin sem við ætlum að fara. Þá reynum við að gera okkar besta.