150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

húsnæðismál .

926. mál
[21:48]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég vildi koma hér upp í lokin og þakka fyrir prýðisgóða umræðu um þetta mál. Þegar við erum með stórmál af þessu tagi eru auðvitað skiptar skoðanir um einstaka hluta þess. Það höfum við séð hér. Bæði milli þingmanna, hjá stjórnarandstöðu og jafnvel í ræðum einstakra þingmanna hefur málflutningur verið þannig að menn hafa áhyggjur af einu og svo öðru sem stangast aðeins á.

Þetta frumvarp er liður í nokkrum frumvörpum sem boðuð hafa verið um húsnæðismál og tengjast lífskjarasamningunum. Hér erum við með frumvarp um hlutdeildarlán sem ætluð eru til að styðja tekjulágt fólk og ungt fólk inn á fasteignamarkaðinn og líka þá sem misstu eignir sínar í hruninu. Frumvarpið er niðurstaða lífskjarasamninganna. Tvö önnur frumvörp sem tengjast lífskjarasamningunum hafa verið boðuð og kynnt í opnu samráði. Annað er um breytingar á húsaleigulögum til að styrkja stöðu leigutaka á húsnæðismarkaði. Hið þriðja snýr að byggingarreglum og einföldun byggingarregluverks til að ná niður kostnaði við mannvirkjagerð. Þessi frumvörp eru öll hluti af því púsli sem lífskjarasamningarnir eru.

Ég þykist vita að margar af þeim athugasemdum og vangaveltum sem hér hafa komið fram, án þess að ég lengi umræðuna mikið, er hægt að skýra í meðförum nefndarinnar með auðveldum hætti. Margt af því sem komið hefur hér fram á rétt á sér og um margt kunna að vera skiptar skoðanir. En stærsti hlutinn tel ég að muni skýrast í meðförum nefndarinnar þegar hún fer betur ofan í málið, fær til sín fólk frá ráðuneytinu, fær til sín þau sem unnið hafa að málinu í alllangan tíma, fær þær greiningar og annað sem býr að baki. Hægt á að vera að svara allflestum spurningum og vangaveltum.

Ég bind vonir við að hægt sé að afgreiða þetta mál hratt og vel en hef þó fullan skilning á því að málið sé þess eðlis að full ástæða sé til að nefndin geti gefið sér tíma til að fara betur ofan í það. Ég sagði í ræðum mínum fyrr í dag að ég hefði skilning á því. Hins vegar er það líka svo að þeim mun fyrr sem málið er afgreitt, þeim mun fyrr getur byggingarmarkaðurinn undirbúið sig og stofnunin undirbúið það að veita slík lán til einstaklinga sem sannarlega þurfa á þeim að halda. Þetta er auðvitað alltaf samspil í tíma. Við viljum stunda vandaða lagasetningu og við viljum eðlilega í hina röndina að þau góðu mál sem lögð eru fram geti farið að virka sem fyrst.

Ég vil þakka fyrir þessa umræðu og lýsi því yfir að ráðuneytið og stofnanir þess eru tilbúnar til skrafs og ráðagerða og til að veita upplýsingar og hvað eina sem nefndin óskar eftir við vinnslu þessa máls.