150. löggjafarþing — 117. fundur,  15. júní 2020.

tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar atvinnufyrirtækja.

814. mál
[16:39]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni yfirgripsmikla ræðu. Ég talaði fyrir því strax í upphafi veirufaraldursins að við myndum nýta heimildir í gjaldþrotalögum til að leyfa fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja vegna Covid-veirufaraldursins. Ég fagna þessu frumvarpi og það er margt gott í því og nauðsynlegt við þessar aðstæður. Það er spurning hvort það hefði verið hægt að fara einfaldari leið með því að heimila það að nýta greiðslustöðvunarúrræðið í gjaldþrotalögunum, að veirufaraldurinn myndi falla þar undir. En hér er gott mál á ferðinni.

Ég er sammála því sem hv. þingmaður segir að það er mikilvægt að þetta ákvæði verði ekki misnotað. En það skiptir líka máli að ákvæðið sé ekki of þröngt og það nýtist raunverulega þeim fyrirtækjum sem eru í bráðavanda vegna veirufaraldursins. Ég fagna einnig þeirri breytingu sem stendur til að gera, að einyrkjar falli hér undir. Það er mjög mikilvægt. Ég minni þó á að það er ákveðinn hópur sem getur ekki nýtt þetta úrræði og það eru þeir sem eru á eigin kennitölu. Þeir eru fjölmargir, t.d. handverksmenn í ferðaþjónustu og aðrir slíkir sem eru einyrkjar og þyrftu virkilega á þessu að halda. Það eru því vonbrigði að nefndin hafi ekki farið þessa leið.

Ég vildi spyrja hv. þingmann um tekjufallið, 75% skilyrðið, hvort það sé alveg fullreynt að því verði ekki breytt. Það hefur verið mælt með því. Viðskiptaráð mælir með því. Það eru fjölmörg fyrirtæki sem eru aðeins undir þessu marki (Forseti hringir.) sem gætu nýtt þetta ákvæði. Er það niðurstaða nefndarinnar, hv. þingmaður, að gera ekki breytingar á tekjufallinu?