150. löggjafarþing — 117. fundur,  15. júní 2020.

tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar atvinnufyrirtækja.

814. mál
[16:43]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Þeir sem starfa á eigin kennitölu eru, eins og ég nefndi sérstaklega, fólk sem tengist ferðaþjónustunni, framleiðir ýmsa vöru sem það selur síðan ferðamönnum. Það hefur orðið fyrir algjöru tekjufalli. Það er líka kostnaðarsamt að stofna fyrirtæki. Mörgum hugnast þetta betur, það er einfaldari leið að nota eigin kennitölu þannig að það hefði vissulega þurft að reyna að finna einhverja lendingu fyrir þennan hóp.

Mig langar í seinna andsvari við hv. þingmann að koma inn á skattlagningu á eftirgjöf skulda. Ég er þeirrar skoðunar að samhliða tímabundinni einföldun á reglum um fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja, eins og við erum að gera hér núna, ætti að breyta tímabundið reglunum um skattlagningu á eftirgjöf skulda. Það er mikilvægt svo að fyrirtæki, verði þessi endurskipulagning möguleg, fái ekki í bakið einhvern reikning fyrir skatti af launum ofan á allt tapið. Þetta veit ég að kom fram innan nefndarinnar og m.a. hefur Viðskiptaráð Íslands lagt áherslu á þetta og kemur fram í umsögn þeirra. Ég varð ekki var við það, þó að ég reyndi að fylgjast vel með hinni löngu ræðu hv. þingmanns, að hann hafi minnst á þetta sérstaklega. Ef hann gæti farið yfir það hvort það hafi verið rætt, hvort fara mætti þá leið að heimila að falla frá skattlagningu vegna eftirgjafar skulda. Ég held að nauðsynlegt sé að skoða það samhliða þessu máli.