150. löggjafarþing — 117. fundur,  15. júní 2020.

tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar atvinnufyrirtækja.

814. mál
[16:45]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Páll Magnússon) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það var reyndar komið inn á þetta atriði í þeim hluta ræðu minnar sem ekki reyndist tími fyrir hérna. Ég get farið stuttlega yfir það. Það er í samræmi við skattalega meðferð eftirgjafar á rekstrargjöldum að eftirgjöf skuldar vegna atvinnureksturs myndar skattstofn. Við teljum í nefndarálitinu mikilvægt að skattaleg meðferð verði ekki mismunandi eftir því hvernig eftirgjöf ber að. Við í meiri hlutanum beinum því til dómsmálaráðuneytis, í samráði við fjármála- og efnahagsráðuneytið, að taka það til nánari skoðunar hvaða áhrif það geti haft á fyrirtæki ef ekki verði veitt tímabundið skattfrelsi tekna af eftirgjöf skulda og hvort tilefni sé til að bregðast við framangreindu skjótt.