150. löggjafarþing — 117. fundur,  15. júní 2020.

tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar atvinnufyrirtækja.

814. mál
[17:05]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Maður stendur frammi fyrir nokkrum vanda vegna þess að við erum í erfiðri stöðu og allir kostir sem við höfum eru slæmir. Rétt eins og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson hjó ég eftir ummælunum um kokteiláhrifin. Nefndin fékk á fund sinn tvo ágæta hagfræðinga, þá Ásgeir Brynjar Torfason og Gylfa Magnússon. Gylfi minnti okkur raunar á það að hagfræðin sé kölluð hin döpru vísindi. Það má kannski segja að þeir hafi verið boðberar slíkrar heimssýnar í sínu innleggi á fundum nefndarinnar án þess að ég ætli að rekja nákvæmlega það sem þeir höfðu að segja. En þeir lögðu áherslu á þá miklu óvissu sem fram undan væri og hvað hagfræðin væri í rauninni vanbúin til að takast á við þær aðstæður sem uppi eru núna. Hagfræðingar vita í sjálfu sér ekkert meira en aðrir sem fást við samfélagið. En þetta sat í mér og er kannski ástæðan fyrir því að ég kem hér upp til að lýsa yfir fyrirvara um leið og ég lýsi yfir stuðningi við þetta mál.

Rétt eins og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson vildi ég nefna kokteiláhrifin sem Ásgeir Brynjar minnti okkur á. Við erum hér með drykki, hver og einn er prýðilegur og ágætur en ef við blöndum þessu öllu saman vitum við ekki hver áhrifin verða. Manni verður hugsað til frásagnarinnar af Íslandskokteilnum í Guðsgjafaþulu Halldórs Laxness þar sem Íslands-Bersi, sem var fulltrúi hins íslenska athafnamanns á þeim tíma, síldarspekúlant, blandaði saman öllu sem í náðist með fyrirsjáanlegum afleiðingum. Um kokteiláhrifin má segja að við erum í aðstæðum þar sem fjölmargar aðgerðir eru í gangi. Hver og ein virðist vænleg en það hefur kannski ekki nógsamlega farið fram mat á heildaráhrifum þessara aðgerða og það veldur vissum áhyggjum.

Við erum stödd í efnahagslegum hríðarbyl og þessu frumvarpi má líkja við það að grafa sig í fönn. Þannig er þetta greiðsluskjól. Það líkist því að við gröfum okkur í fönn. Meðan bylurinn geisar erum við í vari fyrir óveðrinu og síðan slotar því vonandi fyrr en síðar. Þá stígum við upp úr fönninni og alveg ný mynd blasir við okkur, nýtt umhverfi, allt er öðruvísi en það var áður. Ég held að það sé hlutverk löggjafans að reyna eftir megni að hafa einhver áhrif á hvernig það umhverfi er sem blasir við. Ég held að í því sambandi sé dálítið mikilvægt að við höfum í huga að rekstrarumhverfi atvinnulífs í landinu, rekstrarumhverfi fyrirtækjanna, sé sem heilbrigðast, að það sé heilbrigðara en það hefur verið hér á landi á undanförnum árum.

Ég er ekki síst að hugsa um annað frumvarp sem einnig er til meðferðar í hv. allsherjar- og menntamálanefnd og á að taka á svokölluðu kennitöluflakki. Mér finnst nauðsynlegt að nefndin afgreiði það snöfurmannlega og að Alþingi klári það mál um leið og það klárar þetta. Mér finnst þessi mál tengjast og að mikilvægt sé að láta þau tengjast.

Ég hef í sjálfu sér ekki miklu að bæta við ágætar ræður sem hér hafa verið fluttar af framsögumanni og öðrum hv. þingmönnum. Ég fagna því hvernig hv. allsherjar- og menntamálanefnd tókst að taka á vandamálunum varðandi einyrkjana. Og ég vona að það dugi einhverjum og nógu mörgum.

Ég hef skilning á þeim sjónarmiðum sem komu fram hjá fulltrúum neytenda sem voru neikvæðir í garð þessa frumvarps og töldu að þarna væri gengið freklega á rétt neytenda. Ég hef líka skilning á því sjónarmiði að útistandandi skuldir sem hinn almenni neytandi á hjá t.d. einhverju ferðaþjónustufyrirtæki, séu annars eðlis en skuldir vegna lánafyrirgreiðslu vegna þess að neytandinn er búinn að borga fyrir einhverja vöru sem hann á heimtingu á að fá.

En á móti kemur að það er bylur, þannig er það bara og ef ekkert er að gert, ef ekki er gefinn kostur á því að grafa sig í fönn, geta fyrirtækin farist í öllum þessum feiknum. Hvar standa þeir þá sem eiga inni skuldir hjá þeim fyrirtækjum? Það er ómaksins vert að reyna að koma þar til bjargar. Við vitum ekki hverjum þetta mun gagnast. Við vitum ekki nema það muni gagnast einhverjum sem kannski höfðu ekki rekstrarskilyrði fyrir kófið. Við vitum ekki hvort það verður reynt að misnota þessi úrræði á einhvern hátt. Það má reikna með því að það verði reynt. Þannig er það nú einu sinni í mannlegu félagi en þar með er ekki sagt að við eigum ekki að reyna að hjálpa þeim sem þurfa á hjálp að halda, þó að einhverjir reyni að misnota hjálpina. Það er ómaksins vert að reyna það vegna þess að það er svo mikið í húfi. Það er atvinna fólks, lífsviðurværi fólks, draumar fólks, draumar fólks sem stofnar fyrirtæki í kringum einhverja draumsýn sem það hefur. Þetta geta verið lítil fyrirtæki sem framleiða einhverja sniðuga vöru eða sniðuga þjónustu og hafa fullkomlega rekstrargrundvöll í eðlilegu árferði. Þetta er allt óvissu háð, alveg óvenjumikilli óvissu háð.

En að því sögðu þá lýsi ég yfir stuðningi við þetta frumvarp.