150. löggjafarþing — 117. fundur,  15. júní 2020.

tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar atvinnufyrirtækja.

814. mál
[17:22]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála hv. þingmanni í því að gagnsæi sé mikilvægt sem og þær viðmiðanir og reglur sem er verið að leggja til núna á þessum óvenjulegu tímum þar sem við erum að sigla í gegnum mjög djúpa kreppu og atvinnuleysi er gríðarlega mikið. Þetta verður að vera gagnsætt og ég tel einmitt að þingið sé að tryggja það, m.a. með því að hafa þau skilyrði mjög skýr sem fyrirtæki þurfa að uppfylla til þess að geta nýtt sér tilteknar leiðir. Það gildir um þetta frumvarp.

Hv. þingmaður gerir athugasemd við að hér sé ekki um skýrt kostnaðarmat að ræða. Mig langar að spyrja hvað hann telji eðlilegt á þessum tímapunkti, á þeim stað sem við erum í efnahagssveiflunni, að setja mikinn tíma í að grafa þá tölu upp. Ég vil jafnframt spyrja hvort hann telji þann tíma sem slíkt myndi taka eðlilegan fórnarkostnað vegna þeirra fyrirtækja sem á meðan kynnu að fara að óþörfu á hausinn og með þeim áhrifum sem það hefur síðan á afkomu fólks sem starfar hjá þeim. Það er allt í lagi að kalla eftir þessum upplýsingum en hvað er þingmaðurinn tilbúinn að segja að það megi taka langan tíma og á kostnað hvers?