150. löggjafarþing — 117. fundur,  15. júní 2020.

tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar atvinnufyrirtækja.

814. mál
[17:26]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég skil hv. þingmann ekki öðruvísi en svo að hann vilji fá það skrifað inn með skýrari hætti að hér sé mjög mikil óvissa og það þurfi að setja einhvers konar verðmiða á hana, sem svo er hægt að fara með fram og til baka. Ég verð að segja að mér finnst þetta nánast vera bara teoretísk umræða vegna þess að ég er þeirrar skoðunar að verið sé að vanda til verka, það sé alveg klárt hvert sé markmið stjórnvalda með þeim aðgerðum sem er verið að fara í. Mér finnst að á þessum tímapunkti sé kröftunum betur varið, bæði hjá hæstv. ríkisstjórn og okkur þingmönnum sem og öllum þeim embættismönnum sem koma að því að vinna og greina þessi mál, í að koma með tillögur og koma þeim hér í gegn um það sem við getum gert til þess að kreppan dýpki ekki enn frekar og til að hægt sé að tryggja afkomu fólks sem best. Þar eigi forgangurinn að vera akkúrat núna. Það mun örugglega þurfa að gera breytingar þegar fram líða stundir og við sjáum hvernig hlutirnir virka. En mitt mat er það að áhersla stjórnvalda sé á því sem er mikilvægt, ekki að fara út í kostnaðargreiningar sem er mjög erfitt (Forseti hringir.) að setja fingurinn á, heldur að vera með hina mikilvægu stefnumótun. Það er það sem er verið að gera.