150. löggjafarþing — 117. fundur,  15. júní 2020.

tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar atvinnufyrirtækja.

814. mál
[17:36]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Páll Magnússon) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessa spurningu. Það gildir þó sem að ýmsu leyti er réttmætt, en ég vísa til svars hv. þm. Steinunnar Þóru Árnadóttur áðan, það er erfitt að henda reiður á þessu. En munurinn á því úrræði sem við tölum um og t.d. hlutabótaleiðinni eða öðrum þeim leiðum sem hér hafa verið og sem komið hafa til kasta fjárlaganefndar og efnahags- og viðskiptanefndar eftir atvikum, er sú að hér er ekki verið að leggja til stórfelld ríkisútgjöld umfram það sem felst í — ef ég leyfi mér að sletta — „administratífa partinum“ af þessu, hvernig á að framfylgja þessu vegna þess að verið er að breyta lagaúrræðum. Ef menn vilja líta á þetta til einföldunar má segja sem svo að verið sé að gera það til hagsbóta fyrir þau fyrirtæki eða gefa þeim þetta skjól þannig að þau geti grafið sig í fönn yfir ákveðið tímabil. En það er ekki á „kostnað ríkissjóðs“. Verið er að breyta lagalegum úrræðum og gefa þeim fyrirtækjum lagaleg úrræði sem um ræðir, til að komast í skjól fyrir lánardrottnum meðan á þessum tíma stendur, en ekki að fá greiðslur úr hendi ríkissjóðs með sama hætti og önnur þau úrræði lúta að sem við höfum verið með til umfjöllunar á hv. Alþingi og í þeirri hv. nefnd sem við sitjum saman í.