150. löggjafarþing — 117. fundur,  15. júní 2020.

heilbrigðisþjónusta.

439. mál
[18:09]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er alveg rétt að ekki er hægt að taka tillit til allra ábendinga eða sjónarmiða og þetta er auðvitað það sem við höfum svolítið verið að fást við hér í þinginu að undanförnu. En þetta eru grundvallaratriði eins og t.d. varðandi fagráðin sem allar heilbrigðisstéttir og Landspítalinn settu út á. Það er ekkert gert með það. Og bara svo að ég taki dæmi úr þessum umsögnum er ekki farið eftir eindregnum ábendingum þessara stétta um að eitt stórt fagráð muni í rauninni skaða frekar en bæta. Allar fagstéttirnar eru á því.

Það er líka talað um að nauðsynlegt sé að gera breytingar á frumvarpinu varðandi þriðja stigs heilbrigðisþjónustu, að það sé of mikið talað eingöngu um Landspítalann. Það er talað um að skilgreina verði fjarheilbrigðisþjónustu. Það er talað um að það sé óskilgreint hvernig valið er í fagráð. Það er talað um óeðlilega mikið vald forstjóra og fleira og fleira.

Það kom sérstaklega fram í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga að ekkert tillit hafi verið tekið til umsagna þeirra í samráðsgátt og það hefur ekki heldur verið gert núna heldur. Ég er ekki að tala um að það verði að taka við öllum tilmælum eða hugmyndum. En maður veltir fyrir sér hvort ekki sé nauðsynlegt að hafa meira samráð við þær stéttir sem starfa í þessu flókna kerfi.