150. löggjafarþing — 117. fundur,  15. júní 2020.

heilbrigðisþjónusta.

439. mál
[20:46]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér er um margt ágætt og mikilvægt mál á ferðinni sem byggir á góðri vinnu við þingsályktun um heilbrigðisþjónustu sem samþykkt var í þinginu. Frumvarpið er hins vegar því miður ekki nógu vel unnið. Það fékk töluvert margar umsagnir í samráðsgátt sem ekki var tekið tillit til. Málið fékk líka töluvert margar umsagnir hér, sem því miður hefur ekki verið komið til móts við og hefur umræða verið af afskaplega skornum skammti í hv. velferðarnefnd þannig að við í Samfylkingunni getum ekki greitt atkvæði með því. Hefur málið verið kallað til nefndar og vona ég að nefndin komi sér saman um að leyfa umræðu um það af því að ég held að í svona mikilvægu máli skipti miklu að við reynum frekar á samvinnu en sundrungu.