150. löggjafarþing — 117. fundur,  15. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[21:28]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Jú, en ég er samt ekki ánægður vegna þess að ef við tökum bara Sundabrautina þá var byrjað að þrengja að henni. Og við vitum að það virðist vera einhver andstaða við það enn þá, a.m.k. hjá Reykjavíkurborg. Á einhvern undarlegan hátt virðast þeir vilja fara einhverjar krókaleiðir til að koma henni á vegna þess að þeir virðast alltaf vilja þrengja meira og meira að henni, eins og var á sínum tíma með ofanbyggðaveginn, en hann hvarf. Það er búið að taka hann af dagskrá vegna þess að leiðin lá um Garðabæ, sem var eiginlega bagalegt því að það er fáránlegt að láta alla aka í gegnum tvö, þrjú sveitarfélög bara til að komast vestur eða norður, í staðinn fyrir að fara fyrir ofan bæinn.

En varðandi Akureyrarbæ hljótum við að byrja á því að gera ratsjárkerfi öruggt á flugvöllum og sjá til þess að þótt það kosti milljarða þá reddum við því og göngum frá því þannig að það sé í lagi.