150. löggjafarþing — 117. fundur,  15. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[21:32]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Vilhjálmur Árnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Meginmunurinn á þessum tveimur leiðum er að þar sem um jarðgangakostinn er að ræða yrði það alfarið gert í gegnum samgönguáætlun og með hinni almennu gjaldtöku í jarðgöngum. Horft er á það svolítið heildstætt þannig að við erum annars vegar að tala um forgangsröðun innan þess liðar, en hins vegar erum við með samvinnuverkefnum að bjóða upp á valkost til að flýta mikilvægum framkvæmdum. Þá er kostnaðurinn kannski sá fyrir notandann, við að slík framkvæmd fari ekki inn í almenna þjóðhagslega ábatagreiningu og allar þessar miklu rannsóknir, að notandinn borgar veggjöldin til að flýta þeirri framkvæmd. Ég tel að það hafi reynst gríðarlega vel í Hvalfjarðargöngunum og það er módelið sem við miðum við hér. Þær framkvæmdir þurfa samt að uppfylla viss skilyrði og hagkvæmnisútreikninga.