150. löggjafarþing — 117. fundur,  15. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[21:34]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Rétt aðeins um loftslagsmálin. Meiri hlutinn segir að það sé mikilvægt að Vegagerðin komi að áætlanagerð varðandi orkuskipti í samgöngum og loftslagsáhrif samgangna. Mig langar að spyrja þingmanninn hvernig þetta rímar við stjórnarsáttmálann þar sem segir að ríkisstjórnin stefni að því að allar stærri áætlanir ríkisins séu metnar út frá loftslagsáhrifum. Þessi áætlun var ekki metin þannig og síðasta samgönguáætlun ekki heldur. Er verið að leggja til í nefndarálitinu að Vegagerðin geri eitthvað sem ríkisstjórnarflokkarnir ákváðu fyrir þremur árum að ætti að gera hvort eð er með allar áætlanir og hefur ekki enn verið gert?

Af því að hér var Sundabraut nefnd þá skiptir hún náttúrlega máli í þessu samhengi vegna þess að allar úttektir á henni benda til þess að hún muni auka umferðarrýmd og þar með auka heildarumferð á höfuðborgarsvæðinu og hafa neikvæð áhrif á loftslagsmál. Ég velti því upp hvort það sé eðlilegt á þessum tímapunkti að leggja þann aukna þunga í Sundabrautina sem gert er með því að (Forseti hringir.) festa hana í tillögutextanum en ekki ræða hana í greinargerð eins og upphaflega var lagt upp með.