150. löggjafarþing — 117. fundur,  15. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[21:35]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Vilhjálmur Árnason) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ef ég byrja á Sundabrautinni þá gætu þeir útreikningar breyst hratt með hröðum orkuskiptum og öðru slíku sem við göngum út frá hér. En öll samgönguáætlun miðast við stefnu ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum. Það er alveg augljóst. Það sem við erum að benda á, sérstaklega varðandi Vegagerðina og þá áherslu sem hv. þingmaður nefnir, tengist rafvæðingu hafna. Vegagerðin heldur utan um framkvæmdir í höfnum og annað slíkt og er leiðbeinandi varðandi þær og því teljum við mikilvægt þegar kemur að orkuskiptum í samgöngum, og við erum með loftslagssjóð og annað slíkt, að horft sé til þess að hafa Vegagerðina, sem hefur þekkingu á innviðauppbyggingu á höfnum, með í ráðum þegar önnur ráðuneyti vinna að slíkum málum í áætlunum ríkissjóðs.