150. löggjafarþing — 117. fundur,  15. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[21:36]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og ágætisyfirferð. Það er ljóst að mikil vinna hefur farið fram í nefndinni um þessar áætlanir og eðlilegt að töluverð umræða fari fram um þær í þingsal. Það sem mig langar hins vegar að spyrja hv. þingmann út í er umræða um miklar fjárfestingar sem þarna eru á ferðinni, mismiklar að sjálfsögðu eftir verkefnum. Borgarlína er nokkuð fyrirferðarmikil í öllum þeim áætlunum sem við sjáum í dag og í þeim samningum og samkomulögum sem gera á.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Telur hann að í þeim áætlunum sem við fjöllum um núna, og mögulega þeim viðbótarsamningum eða pælingum sem við erum með í þinginu, sé búið að ramma nógu vel inn kostnað ríkisins við þátttöku í að bæta almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu? Er það nógu skýrt? Er það algerlega klárt hver heildarkostnaður íslenska ríkisins er við þátttöku í borgarlínuverkefninu?