150. löggjafarþing — 117. fundur,  15. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[21:39]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé mjög mikilvægt að fyrir liggi hvað ríkið áætlar að þáttur þess í borgarlínunni sé stór. Erum við að tala um 10 milljarða eða 100 milljarða? Það gengur ekki að mínu viti að fara út í slíkt verkefni upp á opinn tékka. Að segja í rauninni bara: Við ætlum að endurskoða það í áætlunum framtíðarinnar hver okkar þáttur verður.

Það er mjög mikilvægt að sú áætlun sem liggur til grundvallar borgarlínu sé algerlega skýr ef ríkið á gangast undir einhverjar skuldbindingar út af þessum miklu framkvæmdum, sem eru vitanlega umdeildar eins og eðlilegt er, og í rauninni vandséð að borgi sig þegar upp er staðið. Reynslan annars staðar sýnir okkur það. Ég er mjög hissa á því ef við ætlum að klára þær áætlanir og samþykktir sem hér liggja fyrir, óviss um hvað þessi gríðarlega stóra framkvæmd á að kosta. Ég ímynda mér alla vega að þegar menn verða farnir af stað og búnir að leggja fyrstu kílómetrana, eða hvað þetta heitir, af þessu öllu saman muni þeir segja: Það er ekki hægt að hætta við. Það er ekki hægt að snúa við alveg sama þótt kostnaðurinn verði 200 milljarðar.