150. löggjafarþing — 117. fundur,  15. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[22:09]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki hverju ég kem að á einni mínútu en mig langar að ræða tvennt. Það eru annars vegar aðgerðir vegna orkuskipta og aðgerðir í loftslagsmálum. Það eru til áætlanir og aðgerðir um orkuskipti, t.d. í sambandi við akstur og umferð í landinu. Það er líka til áætlun um aðgerðir í loftslagsmálum. Margt sem kemur fram í samgönguáætluninni styður við þær en það er ekki verið að fjalla um flugvélar, bíla eða skip í samgönguáætlun, þar er fjallað um vegi, brýr, flugvelli, hafnir og jarðgöng. Mér fannst þær athugasemdir því í sjálfu sér eiginlega ekki koma samgönguáætlun mikið við á flestum sviðum. En gott og vel. Ég held samt sem áður að þessi samgönguáætlun sé nákvæmlega í þágu loftslagsaðgerða og hraðari orkuskipta. Það er rætt um þær í tengslum við hafnirnar að gefnu tilefni. En hitt held ég að sé dálítið langt seilst. Það er í fyrsta skipti núna sem níu manna rafflugvél flýgur hér í nágrenni við okkur. Ég held að það sé langt í það að við förum að reikna með rafknúnum flugvélum á Íslandi fyrir utan það að sumar flugvélar munu nota annað en batterí, verða drifnar með öðrum eldsneytisgjöfum.

Hitt sem mig langar að ræða aðallega eru PPP-verkefnin. Hv. þingmaður segir að það vanti eitt og annað í forsendum og það er alveg rétt vegna þess að PPP-frumvarpið sem fylgir samgönguáætlun opnar leyfi til þess að afla þeirra þátta. Það er ekki verið að leggja fram eitthvað sem er óraunhæft með því að hafa samvinnuverkefni í samgönguáætlun.