150. löggjafarþing — 117. fundur,  15. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[22:11]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Guðjón S. Brjánsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni fyrir andsvarið. Orkuskipti og umræðan um þau og umhverfismálin eru málin sem eru alfa og omega í nútímanum og verða stöðugt fyrirferðarmeiri í allri umræðu þegar fram líða stundir ef vænta má. Þess vegna hefði maður getað búið sig undir það að þeir þættir yrðu enn þá fyrirferðarmeiri hér, áherslurnar enn þá þyngri, því að umræðan er öll á þá leið. Það er í samgöngum, hvort sem þær eru á hafi, í lofti eða á landi, sem við getum náð töluvert miklum árangri.

Varðandi orkuskipti í loftinu og flugvélar er það alveg rétt að kannski einblínum við allt of mikið á rafhlöður. Það eru aðrir kostir sem bjóðast. En þessi þróun er gríðarlega ör. Það er kannski á hálfs árs fresti sem við merkjum greinilegar framfarir og tækni — það er kannski fullmikið að segja tæknibyltingar, en tæknilegar breytingar. Flugrekendur og þeir sem koma nálægt flugi taka þetta stöðugt alvarlegar og eru hreinlega komnir í tilraunaflug hér í nágrenni við okkur.

PPP-verkefnin eru viðkvæmt málefni og okkur greinir á um það hversu langt við eigum að ganga í þessu. Við erum með frumvarp til umfjöllunar nú þar sem verið er opna nýjar dyr til fjármögnunar á innviðum. En það sem ég sakna er auðvitað að settar séu upp einhverjar sviðsmyndir, bæði fyrir þá íbúa sem fyrir (Forseti hringir.) þessu verða og almenning til glöggvunar.