150. löggjafarþing — 117. fundur,  15. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[22:14]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Guðjóni Brjánssyni fyrir andsvarið. Við erum sammála um að umhverfismál og loftslagsmál séu alfa og omega nánast alls en það er bara spursmál hvernig við tökum á þeim í samgönguáætlun sem fjallar um innviði en ekki tæki.

Mig langar að leiðrétta þetta með Alexandersflugvöll og Þingeyrarflugvöll því að í tillögu okkar um flokkun flugvalla kemur fram að þeir flugvellir sem við leggjum til að verði inni á landsnetinu henti nákvæmlega fyrir kennslu- og æfingaflug. Svo að þeir eru þar í, ég held að það hafi bara verið mislesið.

Mig langar að fara í eitt ákveðið atriði og það er einfaldlega þetta: Samgönguáætlun er að töluvert miklu leyti fjármögnuð, ekki að öllu leyti vegna áætlunarinnar 2020–2023 sem við eigum eftir að sjá aðeins betur útfærða. Við förum í 300 milljarða mínus í Covid. Er þá hugmynd Samfylkingarinnar að taka (Forseti hringir.) fleiri lán til að fjármagna vegaframkvæmdir eða samgönguframkvæmdir? Eigum við að auka skuldir okkar?