150. löggjafarþing — 117. fundur,  15. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[22:27]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Vilhjálmur Árnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og vona innilega að borgaryfirvöld séu 100% sammála okkur um ljósastýringuna. Þar erum við hv. þingmaður nefnilega alveg 100% sammála. En varðandi fjármögnunina, við skulum halda áfram með hana, þá hefur sá sem hér stendur oft kallað eftir enn meira fjármagni í samgöngur og sagt að það hafi svolítið setið eftir í umræðunni. Nú hefur umtalsverðum fjármunum verið bætt við í samgöngumál en samt hefur okkur ekki tekist að fjármagna þessar sex framkvæmdir nema í gegnum þá leið sem eru PPP- eða samvinnuverkefnin. Því var sú leið farin. Og þó að við höfum farið þá leið erum við ekki enn þá búin að fjármagna mikilvæg verkefni eins og Skógarstrandarveg, Vatnsnesveg og fleira. Ef okkur gæfist svigrúm til að sækja í sameiginlega sjóði og taka lán og annað slíkt, ef við gætum nýtt það svigrúm, hvort myndi hv. þingmaður setja það í Öxi, Hornafjarðarfljót, Vatnsnesveg eða Skógarstrandarveg?