150. löggjafarþing — 117. fundur,  15. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[23:02]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Karl Gauti Hjaltason) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um það. Auðvitað verður að gera samkomulag um þessar framkvæmdir. Í áliti 2. minni hluta kemur fram að við erum sammála því að stofnbrautir innan höfuðborgarsvæðisins verði lagfærðar sem fyrst, og þar á meðal Sundabraut. Ég sé ekki að Sundabraut komist á dagskrá á næstunni. Það þarf að skipuleggja hana miklu betur og teikna upp á nýtt vegna þess að búið er að breyta öllum forsendum frá því að hún var teiknuð upp. Jafnvel þótt hún væri teiknuð margsinnis upp þá eru allar forsendur breyttar, jafnvel ár frá ári. Við erum sammála því að byggja þarf upp stofnbrautakerfið á höfuðborgarsvæðinu og ég er líka sammála því að auðvitað verður að gera samning um það við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu. Að sjálfsögðu. Ég fagna þessum samningi að öllu leyti nema því er varðar borgarlínu. (Gripið fram í.)