150. löggjafarþing — 117. fundur,  15. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[23:07]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Karl Gauti Hjaltason) (M) (andsvar):

Herra forseti. Þarna komu margar athugasemdir og spurningar. Ég ætla að gera mitt besta til að svara einhverjum af þeim. Í fyrsta lagi er ég alls ekki á móti almenningssamgöngum, svo að það sé sagt, enda sagði ég það í ræðu minni. Landrými sem losnar við að setja Miklubraut í stokk? Já, ég tel það augljóst að ef Miklabraut verður sett í stokk losni um eitthvert landrými. Af sambærilegu get ég t.d. nefnt Hamraborg í Kópavogi þar sem byggð var brú yfir veginn og á brúnni, eða þessari yfirbyggingu, er byggingarland í dag. Og ef þetta verður gert við Miklubraut þá ímynda ég mér að það losni um eitthvert land eða tvöfaldist land á því sem er byggt yfir. Ég hef spurningar um hvað verður um það. Gengur það inn í hlutafélagið eða til Reykjavíkurborgar?