150. löggjafarþing — 117. fundur,  15. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[23:08]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef hlustað á rök Miðflokksmanna um borgarlínuna, hversu óheyrilega dýrt það verkefni sé o.s.frv. Þegar við skoðum hins vegar þær kostnaðargreiningar sem við höfum upp á þann árangur sem við viljum ná er sú leið sem lögð er til í höfuðborgarsamkomulaginu um uppbyggingu borgarlínu, sérakreinar fyrir hraðstrætisvagna og uppbyggingu á ákveðnum stofnvegum bæði ódýrasta og skilvirkasta leiðin til að ná betra umferðarflæði. Ef við hefðum ekki borgarlínuna þyrftum við að borga miklu meira til að nálgast þann árangur sem við gætum náð með henni. Og sá kostnaður og aukarekstrar- og viðhaldskostnaður fyrir þær framkvæmdir hlýtur að dragast frá hugsanlegum áhyggjum þingmannsins af rekstrarkostnaði við borgarlínuna, ef maður ber saman dæmin eins og þau liggja fyrir okkur í þeim kostnaðargreiningum sem við höfum.